Handtekinn vegna YouTube-myndskeiðs

Rannsakendur eru einnig að reyna að komast að því hvernig …
Rannsakendur eru einnig að reyna að komast að því hvernig og hvar Kumar náði í páfuglinn fyrir myndbandið. AFP/Robyn Beck

Indverskur karlmaður sem hafði vonast eftir frægð á netinu var handtekinn og settur í varðhald eftir að myndband hans vakti athygli á YouTube.

Í myndbandinu eldar hann og borðar páfugl, sem er verndaður þjóðarfugl Indlands og vakti myndbandið því mikla reiði.

Lögreglan í Indlandi greindi frá því að Kodam Pranay Kumar hefði verið handtekinn í gær og sendur í fangelsi eftir að fleiri myndbönd fundust í símanum hans sem staðfestu að fuglinn sem hann eldaði í karrírétti sínum var í raun páfugl.

„Hann er nú í fangelsi í 14 daga meðan á rannsókn stendur samkvæmt lögum um vernd villtra dýra, og nú mun dómstóllinn ákveða hvort hann verður áfram í fangelsi eða fær lausn gegn tryggingu,“ sagði Akhil Mahajan, yfirlögregluþjónn í Telangana-ríki.

Vildi fleiri áhorfendur 

Rannsakendur eru einnig að reyna að komast að því hvernig og hvar Kumar náði í páfuglinn fyrir myndbandið, sem hefur nú verið fjarlægt af YouTube-rás hans.

Notendur samfélagsmiðla fordæmdu myndbandið og sökuðu Kumar um að hvetja til ólöglegrar neyslu villtra dýra og um að sýna þjóðartákni Indlands virðingarleysi, en Kumar er sagður hafa gert myndbandið til þess að laða að fleiri áhorfendur.

Indverski páfuglinn, sem er auðþekktur fyrir skærbláa litinn sinn og tignarlegt vænghaf karldýranna, hefur sérstaka táknræna merkingu í Indlandi.

Hröð þéttbýlisvæðing og eyðing búsvæða á undanförnum áratugum hefur verulega dregið úr fjölda þeirra í náttúrunni, en ströng lög vernda þá nú gegn veiði eða skaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert