Karlmaður á tvítugsaldri fannst látinn fyrir utan miðborg Norrköping í í Svíþjóð í gærkvöld. Tveir menn voru handteknir og eru þeir grunaðir um aðild að morðinu.
Sænska ríkisútvarpið, SVT, greinir frá þessu.
Mats Pettersson, talsmaður lögreglunnar, segir að þegar lögreglan hafi komið á vettvang í Bergert-hverfinu hafi maður fundist mikið slasaður. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn. Hinir handteknu eru grunaðir um manndráp eða að hafa aðstoðað við manndráp.
Aftonbladet greinir frá því að maðurinn hafi verið skotinn til bana en lögreglan hefur ekki staðfest þær fréttir.
Fjöldi myndavéla er á svæðinu og kannar lögreglan nú hvort hlutar atburðarásarinnar hafi mögulega náðst á mynd.