Þriggja daga gamlir tvíburar létu lífið í sprengjuárás Ísraelsmanna í gær ásamt móður sinni og ömmu.
Fréttastofa Sky News greinir frá að tvíburarnir, stúlkan Ayssal og drengurinn Aser, hafi fæðst 10. ágúst og því aðeins þriggja daga gömul er faðir þeirra, Mohammed Abu al-Qumsan, yfirgaf heimili þeirra miðsvæðis á Gasa til að sækja fæðingarvottorð þeirra.
Er hann snéri til baka í gærmorgun voru eiginkona hans, börn og tengdamóðir öll látin eftir sprengjuárás Ísraelsmanna.
Eiginkona hans, lyfjafræðingurinn Joumana Arafa, hafði greint frá fæðingu barnanna á Facebook um helgina eftir að hafa gengist undir keisaraskurð.
Fjölskyldan hafði þegar flúið heimili sitt í norðurhluta Gasa samkvæmt fyrirmælum Ísraelshers og leitað skjóls sunnar á Gasa.
Í myndskeiði má sjá Mohammed viti sínu fjær af sorg er nágrannar færa honum fregnirnar af dauða fjölskyldu hans, og fellur hann í lokum í yfirlið.
Ísraelsher hefur ekki tjáð sig um árásina, en kveðst almennt reyna að forðast að særa óbreytta borgara. Dauðsföll óbreyttra borgara séu yfirleitt sökum þess að Hamasliðar haldi til í þéttbyggðum íbúðahverfum og geri jafnvel árásir frá heimilum eða skólum.
Gasa er ein þéttbýlasta byggð í heimi en um 40.000 manns hafa látið lífið á svæðinu í árásum Ísraelsmanna.