Kamala Harris mun í kvöld fara með sína mikilvægustu ræðu hingað til þegar hún tekur formlega við forsetaútnefningu Demókrataflokksins.
Þótt framboð Harris hafi blásið eldmóði í brjóst demókrata er hún enn frekar óþekktur frambjóðandi og enn að skilgreina stefnumál sín.
Í kvöld, á lokadegi landsfundar demókrata, er ætlast til þess að hún muni deila sinni sýn á það hvernig hún sjái stjórn landsins fyrir sér.
Framboð hennar hefur hingað til lagt áherslu á gleði og frelsi og má því gera ráð fyrir að hún einblíni á það í ræðu sinni á sama tíma og hún reynir að kynna sig fyrir Bandaríkjamönnum.
Mun hún færa rök fyrir því að með því að kjósa hana þá sé verið að horfa fram á veginn en með því kjósa Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana, þá sé verið að fara aftur á bak.
Í ræðu sinni mun Harris segja frá því hvernig hún ólst upp hjá vinnandi móður og að hún þekki þær áskoranir sem blasa við fjölskyldum sem hafa orðið fyrir barðinu á verðbólgunni, sagði talsmaður kosningabaráttunnar í samtali við fréttaveitu AFP.
Aðeins mánuður er liðinn síðan Joe Biden Bandaríkjaforseti dró framboð sitt til baka og Kamala Harris bauð sig fram.
Á þeim tíma hefur Trump farið frá því að vera með nokkuð afgerandi forskot á Biden yfir í það að vera núna á eftir Harris.
Á sama tíma og það er mikill léttir fyrir demókrata að vera ekki með Biden í framboði og útkoma í skoðunarkönnunum hefur reynst nokkuð ágæt, þá átta þeir sig á því að það er enn langt í land.
Síðan landsfundurinn hófst á mánudag þá hafa framamenn í flokknum, á borð við Bill Clinton og Barack Obama, varað við því að erfið barátta sé fram undan við Trump.
Skilaboðin hafa verið þau að flokksmenn þurfi að nýta kraftinn og stemninguna sem hefur byggst upp til að tryggja að hvert einasta atkvæði skili sér á kjörstað.