Hamas-samtökin hafa varað við því að gíslar þeirra snúi aftur til Ísraels í líkkistum ef hernaðarþrýstingur Ísraela heldur áfram.
„Þörf Netanjahús á að frelsa fangana með hernaðarþrýstingi í stað þess að gera samning mun þýða að þeir munu snúa aftur til fjölskyldna sinna í líkkistum,“ segir í tilkynningu frá Abu Obeida, talsmanni hernaðararms samtakanna.
Kemur þá einnig fram í tilkynningunni að þeim vígamönnum sem gæta gíslanna hafi verið sett ný fyrirmæli varðandi hvernig skuli bregðast við ef Ísraelski herinn myndi nálgast staðsetningu þeirra.
Tilkynningin kemur í kjölfar blaðamannafundar Benjamíns Netanjahú í Jerúsalem þar sem hann sagði að Hamas-samtökin myndu gjalda fyrir að hafa tekið sex gísla af lífi um helgina.
Greint hefur verið frá að gíslarnir hafi verið skotnir í hnakkann stuttu áður en ísraelski herinn fann lík þeirra.
Vígamenn frá Hamas tóku 251 gísl í árás sinni á Ísrael 7. október sem varð kveikjan að stríðinu. 97 þeirra eru enn á Gasasvæðinu, þar á meðal 33 sem Ísraelsher segir að séu látnir.
Joe Biden Bandaríkjaforseti fundaði í dag með bandarískum samningamönnum í von um að ná samkomulagi um lausn gísla í átökum Ísraela og Hamas-samtakanna. Bandaríkjamenn hafa í samstarfi við samningamenn frá Egyptalandi og Katar eytt mörgum mánuðum í að koma í kring skiptum á gíslum og föngum á Gasasvæðinu, ásamt vopnahléi.
Hundruð þúsunda Ísraela hafa safnast saman á götum landsins síðustu tvo daga til að þrýsta á stjórnvöld að ná samningum um endurheimt gísla.