Íbúar Stavanger á vesturströnd Noregs eru harmi slegnir eftir að tveir piltar á táningsaldri, fimmtán og sextán ára, búsettir þar í bænum, fundust látnir í sjónum í Hidlefjorden í gær, sunnudag.
Maður á fertugsaldri situr í haldi lögreglu, grunaður um að hafa siglt báti sínum á sæþotu sem drengirnir stýrðu og með athæfi sínu banað þeim báðum.
Enn er atburðarásin ekki að fullu ljós en eftir því sem Øyvind Bore, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í suðvesturumdæmi norsku lögreglunnar, greinir frá í fréttatilkynningu hafði stjórnandi bátsins samband við lögreglu og björgunarmiðstöð aðfaranótt gærdagsins og kvaðst hafa siglt á einhvers konar fyrirstöðu.
Bátur hans hefði orðið fyrir þungu höggi og líkast til hefði hann rekist á eitthvað í sjónum, ekki væri honum kunnugt um hvað. Hann hélt svo til síns heima eftir að hafa fullvissað sig um að leki hefði ekki komið að fleyi hans.
Í gær hefði hann svo lesið um það í fjölmiðlum að löskuð sæþota hefði fundist í sjónum og þá haft samband við lögreglu á ný. Leit hafi þá hafist sem lyktaði með því að lík drengjanna, þeirra Gabriels Johans Misiewicz-Myhre, fimmtán ára, og Noahs Østerhus Asks, sextán ára, fundust í firðinum.
Lagði lögregla þegar hald á bát mannsins og farsíma og segir verjandi hans, Sigurd Rønningen, að skjólstæðingur hans viðurkenni ekki og telji sig ekki hafa viðhaft saknæma háttsemi í því sem átti sér stað. Sætti hann fyrstu yfirheyrslu í gær.
Réttargæslulögmaður foreldra drengjanna, Maren Eide, kveður málið hið sorglegasta. „Þau eru í rúst. Þetta er það versta sem foreldrar geta upplifað,“ segir lögmaðurinn.
Bore ákæruvaldsfulltrúi tekur fram við norska ríkisútvarpið NRK að engan veginn sé hægt að slá því föstu að grunaði hafi í raun stýrt bátnum sem líkast til sigldi á sæþotu piltanna.
„Nú einbeitum við okkur að rannsókn þess hvað henti þessa drengi,“ segir Bore við NRK.
Áfallahjálparteymi Stavanger er í viðbragðsstöðu og reiðubúið að aðstoða þá sem til þess vilja leita auk þess sem kirkjurnar í Bekkefaret og Talgje opnuðu dyr sínar þurfendum klukkan 20 í kvöld.