Norskir fjölmiðlar og lögregluyfirvöld draga nú upp æ skýrari mynd af síðustu klukkustundunum sem þeir vinirnir Gabriel Johan Misiewicz-Myhre og Noah Østerhus, fimmtán og sextán ára gamlir, lifðu um helgina. Svo virðist sem drengirnir hafi bjargað mannslífi rétt áður en þeir létust sjálfir af slysförum á fjölförnu hafinu við smábátaparadísina Stavanger.
Eins og mbl.is greindi frá í gær hafa þeir piltar orðið fjölskyldum sínum og fleiri sveitungum í norsku olíuhöfuðborginni harmdauði eftir það sem lítur út fyrir að hafa verið sorglegt slys í Hidlefjorden við eyjuna Talgje í hinu sögulega Ryfylki norður af Stavanger.
Maður á fertugsaldri situr í haldi lögreglu, grunaður um að hafa siglt frístundabáti sínum á sæþotu sem piltarnir sátu aðfaranótt sunnudags. Hafði sjófarandinn samband við lögreglu og björgunarmiðstöð sjófarenda eftir að þungt högg kom á bát hans. Eftir að hafa fullvissað sig um að báturinn læki ekki lét hann gott heita en á hann runnu tvær grímur þegar hann las það í fréttum á sunnudaginn að yfirgefin sæþota hefði fundist marandi í hálfu kafi.
Hann hafði þá þegar samband við lögreglu sem hóf umfangsmikla leit í námunda við Talgje og lyktaði með því að lík drengjanna fundust úti fyrir Tau í sveitarfélaginu Strand. Áfallahjálparteymi sveitarfélaga á Stavanger-svæðinu hafa verið í viðbragðsstöðu síðan á sunnudag og kirkjur opnað dyr sínar syrgjendum.
Myndir og stutt frásögn sem drengirnir sjálfir sendu helsta dagblaði svæðisins, Stavanger Aftenblad, klukkan 16:13 á laugardaginn afhjúpa að þeir voru fyrstir á vettvang slyss sem annar sæþotustjórnandi hafði orðið fyrir.
Sá fékk á sig öldugang frá báti sem nægði til að brjóta færleik hans í tvennt og komu Misiewicz-Myhre og Østerhus tímanlega á vettvang til að koma manninum til aðstoðar, þar sem hann lá ósjálfbjarga í sjónum, og vekja athygli sjófaranda í nágrenninu á neyðinni. Sá heitir Ronny Wennberg.
Var manninum bjargað þar um borð en drengirnir hringdu í foreldra sína og greindu þeim frá afreki sínu auk þess að senda Stavanger Aftenblad myndir og frásögn. Síðan spurðist ekki til þeirra uns lík þeirra fundust á sunnudaginn.
„Ég sá bara að eitthvað flaut í vatninu eftir að öldurnar lægði,“ segir Wennberg við norska ríkisútvarpið NRK, „svo komu strákarnir tveir þar að [á sæþotunni] áður en þeir komu til mín.“ Ekki leið á löngu uns athygli áhafnar bátsins Restless Challenger var vakin sem einnig kom til hjálpar, enda þekkt að norskir eigendur frístundabáta hjálpast að þegar skórinn kreppir.
„Þetta atvik segir meira en mörg orð um þessa drengi og foreldrar þeirra eru stoltir af þeim,“ segir Maren Eide lögmaður, réttargæslumaður fjölskyldunnar, sem henni var skipaður eftir að andlát drengjanna varð að sakamáli.
„Við höfum ástæðu til að ætla að slysið hafi orðið á laugardagskvöld eða aðfaranótt sunnudags,“ segir Kjetil Hagen, vaktstjóri hjá Björgunarmiðstöð Suður-Noregs, við NRK. Sæþota drengjanna fannst við Rossøy en lík þeirra fundust mun sunnar, við Austre-Åmøy.
Lögreglan í Stavanger rannsakar nú tildrög þess sem virðist hafa verið hörmulegt slys og að sögn Sigurd Rønningen, verjanda mannsins sem grunaður er um að hafa siglt á piltana, neitar skjólstæðingur hans að bera refsiábyrgð á andláti piltanna.
Tekur verjandinn hins vegar fram að grunaði hafi þegar í stað haft samband við lögreglu og björgunarmiðstöð þegar mikið högg kom á bát hans aðfaranótt laugardags. Í kjölfar þess að svara því neitandi hvort leki hefði komið að bátnum var honum ráðlagt að halda för sinni áfram.