Breskur göngumaður fannst látinn og annars er saknað á spænsku eyjunni Mallorca en mikil úrkoma og hvassviðri hefur verið á þessum vinsæla ferðamannastað síðustu dagana.
Björgunarfólk hefur leitað göngumannanna tveggja síðan á mánudagskvöldið á fjallsvæði á Mallorca.
Í yfirlýsingu lögreglunnar kemur fram að líkið sem fannst sé af konu en karlmanns sé saknað.
Leitinni hefur verið hætt vegna óveðurs en verður haldið áfram þegar veðrið lagast. Í dag er áfram spáð mikilli rigningu á eyjunni og miklu hvassviðri.
Mallorca er þekkt fyrir fallegar strendur og sólríkt veður og er einn af mest heimsóttu áfangastöðum Evrópu.