Dönsk flugmálayfirvöld ákváðu 14. ágúst að aflýsa öllu millilandaflugi frá Nuuk, höfuðborg Grænlands, á meðan unnið væri að því að koma öryggismálum og eftirliti á flugvellinum í viðunandi horf. Nú um þremur vikum síðar er staðan óbreytt.
Unnið hefur verið að smíði nýrrar flugstöðvarbyggingar í Nuuk sem og að stækka flugbrautina, og bundu menn vonir við að hægt yrði að hefja sig til flugs frá flugvellinum í stærri farþegaþotum í millilandaflugi í nóvember. Hingað til hefur aðeins verið hægt að fljúga smærri vélum á borð við Dash-8, sem taka í kringum 80 farþega.
Öryggismál á vellinum hafa aftur á móti ekki staðist alþjóðleg skilyrði og af þeim sökum ákváðu dönsk flugmálayfirvöld að heimila ekki millilandaflug frá flugvellinum.
Fram kemur á flugvefnum Airline Geeks, að farþegaþotur megi aftur á móti lenda í Nuuk með erlenda farþega en hins vegar mega slíkar vélar ekki fljúga frá flugvellinum til annarra landa á meðan staðan er með þessum hætti.
Þá segir að frá Nuuk, sem er á vesturströnd Grænlands, sé flogið til tveggja erlendra áfangastaða, þ.e. til Íslands og til Iqaluit í Kanada. Icelandair og Air Greenland hafa annast farþegaflug á milli Íslands og Grænlands.
Greint er frá því í umfjöllun Airline Geeks, að Icelandair hafi brugðið á það ráð að millilenda í Kulusuk á austurströndinni þar sem farþegar fari í gegnum öryggisskoðun. En það lengir ferðalagið töluvert, en almennur flugtími á milli Nuuk og Keflavíkurflugvallar er um 3 klukkustundir og 45 mínútur. Ferðatíminn er því sagður vera um tveimur tímum lengri en vanalega.
Þá segir í umfjölluninni að vonir hafi staðið til þess að allt væri komið í samt lag 20. ágúst. En nú, þremur vikum síðar, er staðan óbreytt.
Þrátt fyrir að Nuuk sé höfuðborg Grænlands og stærsta borg landsins, þá hefur alþjóðaflugvöllur landsins verið í Kangerlussuaq.