Gæsluvarðhald framlengt yfir Watson

Paul Watson.
Paul Watson. AFP

Héraðsdómur í Nuuk í Grænlandi framlengdi í dag gæsluvarðhald yfir Paul Watson, stofnanda Sea Shepherd, um 28 daga, til 2. október. 

Lögmenn Watsons lýstu því yfir að úrskurðurinn yrði kærður til grænlenska landsréttarins.

Watson var handtekinn í Nuuk í júlí á grundvelli alþjóðlegrar handtökuskipunar sem alþjóðalögreglan Interpol gaf út árið 2012 að beiðni japanskra stjórnvalda. Japanar hafa krafist þess að Watson verði framseldur til Japans þar sem hans bíður ákæra fyrir að stofna lifi japanskra hvalveiðimanna í hættu með aðgerðum gegn þeim í Suðurhöfum árið 2010.

Köstuðu belgjum fullum af þránuðu smjöri á skipin

Dómari í Nuuk veitti leyfi til að sýnt yrði stutt myndband, sem lögmenn Watsons sögðu sýna aðgerðirnar gegn japönsku hvalveiðiskipunum en m.a. var belgjum fullum af þránuðu smjöri kastað á japönsku skipin. 

Watson fullyrti í réttarhaldinu, að enginn hefði beðið skaða af aðgerðunum. Hann fullyrti að Japanar hefðu reiðst yfir sjónvarpsmyndum, sem sýndar voru af atvikinu og krafan um handtöku hefði verið sett fram í hefndarskyni. 

Dönsk stjórnvöld eru enn með framsalskröfuna til meðferðar. Gæsluvarðhald yfir Watson hefur tvívegis verið framlengt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert