Bandaríkjamenn ásaka nú rússneska fjölmiðla og áhrifamikla ráðamenn þar í landi um að hyggjast reyna að hagræða úrslitum bandarísku forsetakosninganna í nóvember með umsvifamikilli herferð sem þegar sé hafin.
Viðhöfðu ráðuneyti dóms-, utanríkis- og fjármála í Bandaríkjunum að eigin sögn aðgerðir til að draga úr áhrifum rússnesku áhrifabylgjunnar sem sögð er hafin.
Ásakar Merrick Garland ríkissaksóknari fjölmiðilinn RT, sem áður gekk undir heitinu Russia Today, um að fjármagna á laun leppfyrirtæki í Tennessee til að dreifa áróðri til íbúa Bandaríkjanna.
Segir saksóknari ætlun stjórnarherranna í Moskvu að tryggja sér þau kosningaúrslit sem þeim séu hagfelldust. Sagði John Kirby, talsmaður þjóðaröryggismála í Hvíta húsinu, að ætlun Rússa væri að draga úr alþjóðlegum stuðningi við Úkraínu í átökum landsins við rússneska innrásarliðið og um leið hafa áhrif á val bandarískra kjósenda í kjörklefanum í nóvemberbyrjun.