Þúsundir mótmæltu nýja forsætisráðherranum

Mikill fjöldi mótmælti á götum Frakklands í dag.
Mikill fjöldi mótmælti á götum Frakklands í dag. AFP

Tugþúsundir Frakka hafa í dag mótmælt tilnefningu hægrimannsins Michel Barnier til forsætisráðherra en vinstrimenn fengu flest þingsæti í kosningum sem haldnar voru í sumar.

Mótmælafundir voru haldnir víðsvegar í Frakklandi, meðal annars í París, Marseille, Nantes, Nice og Starsbourg.

Mótmælin voru boðuð af verkalýðsfélögum og vinstrisinnuðum stjórnmálaflokkum sem eru ósátt með að litið hafi verið fram hjá þeirra ráðherraefni við valið á forsætisráðherra.

Til í að vinna með öllum

Barnier, sem var samningamaður ESB í Brexit-viðræðunum, hefur gefið út að hann sé opinn fyrir því að mynda ríkisstjórn með stjórnmálamönnum sem spanna allt pólitíska litrófið, þar með talið vinstri mönnum.

Ef marka má þann fjölda sem tók þátt í mótmælum dagsins virðast vinstrimenn ekki vera spenntir fyrir þeirri hugmynd og saka þeir Macron jafnvel um að hafa „stolið“ kosningunum af þeim.

Stjórnarkreppa hefur verið í Frakklandi síðan gengið var að kjörborðinu fyrir tveimur mánuðum en fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Gabriel Attal, hefur leitt starfstjórn síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka