Móðir fjórtán ára drengs varaði skólayfirvöld við drengnum daginn sem hann er sakaður um að hafa hafið skothríð í skólanum og orðið fjórum að bana.
Hinn 14 ára Colt Gray er sakaður um að hafa hafið skothríð í framhaldsskóla í Apalachee í Georgíuríki í Bandaríkjunum í síðustu viku og orðið tveimur kennurum og tveimur samnemendum að bana. Níu til viðbótar særðust í árásinni.
Bæði móðir drengsins og amma voru í samskiptum við skólann í tengslum við drenginn. Móðir hans varaði skólann við yfirvofandi ógn og bað skólayfirvöld að hafa auga með honum.
BBC greinir frá.
Faðir drengsins hefur verið ákærður fyrir morð af gáleysi, morðtilræði og grimmd gegn barni. Þá hefur hann verið sakaður um að hafa veitt syni sínum aðgang að hálfsjálfvirkum riffli.
Ekki er vitað hvað fékk móður drengsins til þess að hafa samband við skólann þennan tiltekna dag en systir hennar afhenti yfirvöldum skilaboð sem fóru þeirra á milli daginn sem árásin átti sér stað.
Í skilaboðunum segir móðirin við systur sína að hún hafi látið námsráðgjafa skólans vita að um neyðarástand væri að ræða og að það þyrfti að hafa auga með syni hennar.
The Washington Post greindi frá samskiptunum og segir að mögulegur misskilningur hafi átt sér stað þegar starfsmaður skólans hafði afskipti af öðrum dreng með svipað nafn.