Flugvélaframleiðandinn Boeing hefur boðið starfsfólki sínu 25 prósent launahækkanir yfir fjögurra ára tímabil í þeirri von um að koma í veg fyrir verkföll sem gætu lamað nánast alla starfsemi félagsins. Verkföllin hefjast á föstudag, náist samningar ekki fyrir þann tíma. BBC greinir frá.
Krafa hefur verið uppi um 40 prósent launahækkanir en leiðtogar verkalýðsfélaga sem eru í forsvari fyrir um 30 þúsund starfsmenn hafa hvatt fólk til að taka samningnum, þar sem hann sé sá besti sem náðst hefur í samningaviðræðum.
Fyrir utan launahækkanir fá starfsmenn betri aðgang að heilbrigðisþjónustu og aukin eftirlaunaréttindi ásamt 12 vikna fæðingarorlofi á launum. Þá munu starfsmenn hafa meira að segja um öryggis- og gæðamál félagsins.
Verði samningurinn samþykktur verður það mikilvægur áfangi fyrir nýjan forstjóra Boeing, Kelly Ortberg, sem er undir miklum þrýstingi að bæta gæði og orðspor félagsins.
Kosið verður um samninginn á fimmtudag, en verði honum hafnað þarf að kjósa aftur um verkföll og þarf þá samþykki tvo þriðju hluta félagsmanna verkalýðsfélaganna.