ESB segir upplýsingar um flugskeyti áreiðanlegar

Pútín Rússlandsforseti.
Pútín Rússlandsforseti. AFP/Gavriil Grigorov

Evrópusambandið segir að samherjar þess hafi deilt upplýsingum um að Íranir hafi útvegað Rússum flugskeyti. Sambandið varar við nýjum refsiaðgerðum gegn Íran ef þetta reynist rétt.

„Við vitum af áreiðanlegum upplýsingum sem samherjar okkar útveguðu um sendingu íranskra flugskeyta til Rússlands,“ sagði Peter Stano, talsmaður ESB.

„Við erum að skoða þetta betur með aðildarríkjum okkar og ef þetta fæst staðfest þýðir þessi sending umtalsverða aukningu á stuðningi Írans við ólöglegt stríð Rússlands gegn Úkraínu,“ bætti hann við.

The Wall Street Journal greindi frá því á föstudag að Bandaríkin hefðu látið evrópska samherja sína vita af að því að Íran hefði sent Rússum flugskeyti.

Rússnesk stjórnvöld neituðu þessu ekki þegar þau voru spurð út í málið í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert