Ástralska lögreglan sagðist í morgun hafa hafið alþjóðlega leit að manni sem er sakaður um að hafa hellt heitu kaffi yfir níu mánaða barn með þeim afleiðingum að það hlaut alvarleg brunasár.
Paul Dalton hjá lögreglunni í ríkinu Queensland, sagði að 33 ára maður sem er grunaður um verknaðinn hefði flúið landið nokkrum dögum eftir „huglausasta glæp“ sem rannsóknarlögreglumaðurinn hefði séð á áratugalöngum ferli sínum.
Barnið var í lautarferð með fjölskyldu sinni í almenningsgarðinum Brisbane seint í ágúst þegar maður, sem talið er að sé farandverkamaður, hellti sjóðheitu kaffi yfir andlit þess og útlimi.
Barnið hlaut alvarleg brunasár og þurfti að gangast undir margar aðgerðir.
Lögreglan hefur enga hugmynd um hvað manninum gekk til með athæfinu. Fjölskyldan þekkti hann ekki og talið er að maðurinn sé núna staddur í öðru landi.
Hann er sakaður um að hafa ætlað sér að valda alvarlegum líkamlegum staða. Verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðardóm.
Dalton sagði lögregluna staðráðna í því að linna ekki látum fyrr en maðurinn verði handtekinn og færður fyrir dóm.
„Við hættum ekki fyrr en við finnum þig,“ sagði hann.
„Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að ná þessari manneskju á lögmætan hátt hingað aftur til að réttlætið nái fram að ganga.“