Kenískur karlmaður sem myrti hlaupakonuna Rebeccu Cheptegi frá Úganda lést af sárunum sem hann hlaut er hann kveikti í henni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjúkrahúsinu þar sem hlúð var að manninum, Dickson Ndiema Marangach.
Mikil sorg og reiði hefur ríkt vegna dauða Cheptegei, sem keppti í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum í París í sumar. Marangach, sem var kærasti Cheptegei, réðst á hana á heimili hennar 1. september og hellti yfir hana bensíni.
Marangach hlaut brunasár á 41 prósenti líkamans eftir að hann kveikti í henni.
„Við lítum á málin þannig að réttlætinu hafi verið fullnægt,“ sagði Joseph Cheptegei, faðir hlaupakonunnar, við AFP.
„Núna viljum við bara jarða dóttur okkar,“ bætti hann við og sagðist vera örmagna eftir það sem á undan er gengið.