Óska eftir aðstoð við að leysa 28 ára gamalt mál

Skjáskot úr stuttmyndinni sem var gerð um málið.
Skjáskot úr stuttmyndinni sem var gerð um málið. Skjáskot/Europol

Lögreglan í Þýskalandi og Europol óska eftir aðstoð almennings við að leysa 28 ára gamalt óupplýst morðmál sem er sagt tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.

Í tilkynningu Europol sem barst fjölmiðlum í morgun segir að enn sé óljóst hver morðinginn er þrátt fyrir umfangsmikla rannsókn. Vona yfirvöld að aðstoð almennings og tækniframfarir muni varpa nýju ljósi á málið.

Fórnarlambið góðkunningi lögreglu

Málið á rætur að rekja til 8. ágúst árið 1996 í Dümmerlohausen í Þýskalandi þar sem lík karlmanns fannst við hlið stolinnar bifreiðar, illa leikið eftir skothríð.

Maðurinn var frá Júgóslavíu og góðkunningi lögreglunnar. Er hann sagður hafa verið viðriðinn glæpagengi.

Maðurinn er talinn hafa verið gestur á hóteli í Oldenburg á þeim tíma sem hann var myrtur. Þrátt fyrir umfangsmikla rannsókn hefur lögreglu enn ekki tekist að upplýsa málið.

Hér má finna stuttmynd sem var nýlega framleidd af yfirvöldum í Þýskalandi um málið.

Biðla til almennings að hafa samband

Hefur þýska lögreglan nú opnað rannsókn málsins að nýju og óskað eftir aðstoð Europol.

Biðla Europol og þýska lögreglan hvern þann sem gæti haft upplýsingar um málið, sama hve ómerkilegar þær eru, að hafa samband.

Hefur lögregla opnað vefgátt fyrir hugsanleg vitni sem vilja veita upplýsingar nafnlaust.

Býður lögreglan í Oldenburg fimm þúsund evrur fyrir þann sem veitir lögreglu gögn sem munu upplýsa málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert