Alberto Fujimori, fyrrverandi forseti Perú, er látinn 86 ára að aldri. Frá þessu greina dætur hans.
Er hann helst þekktur fyrir að hafa fyrirskipað fjöldamorð í tvígang.
ABC News greinir frá.
Fujimori, sem var forseti landsins á árunum 1990 til 2000, hlaut 25 ára dóm fyrir að hafa í tvígang fyrirskipað fjöldamorð dauðasveita á árunum 1991 og 1992.
25 manns létust í fjöldamorðunum, þar af eitt barn. Sat hann í fangelsi frá árinu 2007 til ársins 2023.
Alberto Fujimori flúði frá Perú eftir að hann lét af embætti upp úr aldamótum, upphaflega til heimalands forfeðra sinna, Japans. Hann var síðan framseldur aftur til Perú árið 2007 frá Chile, þar sem hans beið fangelsisvist eftir að hafa verið sakfelldur í fjarveru sinni.
Árið 2017 var hann náðaður af þáverandi forseta Perú, Pedro Pablo Kuczynski, rétt áður en hann hrökklaðist frá völdum.
Þeirri náðun var síðan snúið við ári síðar, 2018, en svo árið 2022 ákvað stjórnskipunardómstóll Perú að endurvekja upphaflegu náðunina.