Meirihluti bandarískra kjósenda sem horfðu á kappræðurnar á milli Donalds Trumps og Kamölu Harris í gærkvöldi telja að Harris hafi staðið sig betur en Trump.
Þetta kemur fram í nýrri könnun CNN en 63% svarenda töldu Harris hafa borið af en 37% þeirra fannst Trump standa sig betur í kappræðunum sem fóru fram á sjónvarpsstöðinni ABC.
Fyrir kappræðurnar sýndi könnun meðal sömu kjósenda að fyrirfram töldu 50% þeirra að Harris mundi hafa vinninginn í kappræðunum og 50% Trump.
Þá kom fram í könnuninni að 96% stuðningsmanna Harris töldu að hún hafi staðið sig betur og 67% stuðningsmanna Trumps að hann hafi staðið sig betur.
Kjósendur sem fylgdust með kappræðunum voru almennt með jákvæðara viðhorf gagnvart Harris að þeim loknum en þær höfðu lítil áhrif á álit kjósenda á Trump.
Þá virðist gærkvöldið hafa haft lítil áhrif á hvar kjósendur telja að styrkleikar frambjóðendanna liggja en meirihluti telur Trump enn betri kost þegar kemur að efnahag landsins og innflytjendamálum á meðan Harris er talin betri kostur þegar kemur að málefnum tengdum þungunarrofi og því að standa vörð um lýðræðið.
Langflestir sem fylgdust með kappræðunum segja að þær hafi ekki haft nein áhrif á hvernig þeir muni kjósa í forsetakosningunum í nóvember en þó voru stuðningsmenn Trumps líklegri en stuðningsmenn Harris til að segja að kappræðurnar gæfu ástæðu til að endurhugsa atkvæði sitt.
Þessar niðurstöður marka mikinn viðsnúning frá kappræðum Donalds Trumps og Joe Bidens sem áttu sér stað í lok júní en eftir þær taldi 67% að Trump hefði staðið sig betur en Biden.