21 árs maður í Danmörku ákærður fyrir hryðjuverk

Þetta er ekki fyrsta skiptið sem glæpagengið Loyal to Familia …
Þetta er ekki fyrsta skiptið sem glæpagengið Loyal to Familia tengist hryðjuverkamáli í Danmörku. Skjáskot/YouTube

Dönsk yfirvöld hafa ákært 21 árs mann fyrir hryðjuverk. Er hann sakaður um að hafa kveikt eld á heimili gyðings í Kaupmannahöfn. Maðurinn er einnig talinn tengjast glæpagenginu Loyal to Familia.

Danska öryggisþjónustan, PET, tilkynnti um þetta á þriðjudagsmorgun og hafa fregnirnar vakið mikinn ugg í dönsku höfuðborginni, einkum meðal gyðinga.

Íkveikjan átti sér stað í Kaupmannahöfn þann 29. maí samkvæmt ákærunni. Þar kemur einnig fram að maðurinn hafi kveikt í húsgögnum á svölum heimilisins og að ef ekki hefði verið fyrir snögg viðbrögð slökkviliðsins hefði eldurinn náð að breiða frekar úr sér.

Var handtekinn í Finnlandi og tengist alræmdu glæpagengi

Lögreglan telur að hinn ákærði hafi reynt að kveikja í húsi konunnar vegna þess að hún er gyðingur en maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan í júní vegna málsins og er einnig talinn tengjast glæpagenginu Loyal to Familia (LTF), en búið er að banna gengið í landinu, að sögn PET.

„Hann helti [eldfimum vökva] inn í gegnum svaladyrnar, og kveikti þannig eld í húsgögnum sem síðan dreifði úr sér,“ sagði Anders Larson saksóknari í samtali við TV2.

Larson greindi einnig frá því að maðurinn hefði fyrst verið handtekinn í Finnlandi og síðar framseldur til Danmerkur.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem LTF-gengið er talið tengjast hryðjuverkum í Danmörku. Í desember 2023 voru sex handteknir grunaðir um að undirbúa hryðjuverk, þar af tveir sem eru í LTF-genginu.

Árið 2015 var einnig ráðist á Krudttønden, bæna­hús gyðinga, en þá var einn hryðju­verka­mann­anna tengd­ur öðrum glæpa­hóp­um.

Glæpur gegn greiðslu?

Í samtali við danska ríkisútvarpið sagði Michael Hamann, yfirmaður hjá hryðjuverkadeild PET, að það væri mögulegt að fólk með tengsl við glæpagengi framkvæmi ódæðisverk gegn greiðslu.

„Auðvitað geta menn líka sem meðlimir í glæpagengi verið drifnir áfram af málstað Palestínu rétt eins og öllu öðru.“

Samfélag gyðinga í áfalli, en ekki hissa

„PET hefur um hríð varað við aukinni hryðjuverkaógn þar sem gyðingar og Ísraelsmenn eru skotmörk, sérstaklega í ljósi átakanna í Ísrael og á Gasa. Með tilliti til rannsóknarhagsmuna eru takmörk á því sem ég get sagt um málið,“ var haft eftir Finn Borch Andersen, forstjóra PET, í fréttatilkynningunni.

Samfélag gyðinga í landinu er í áfalli að sögn Henri Goldsteins, sem er formaður Félags gyðinga í Danmörku.

„Þetta er ógnvekjandi. Sérstaklega vegna þess að þetta er ekki gegn gyðinglegri stofnun, heldur hefur gerandinn leitað upp heimili gyðingafjölskyldunnar,“ hefur Kristeligt Dagblad eftir Goldstein.

„Þetta kemur samt ekki á óvart að það koma upp hryðjuverk sem beinast að gyðingafjölskyldum. Ég hafði ekki búist við því að það myndi gerast á einkaheimili, en lögreglan metur svo að hryðjuverkaógn, ekki síst gagnvart stofnunum gyðinga, hafi aukist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert