67 milljónir áhorfenda fylgdust með kappræðum forsetaframbjóðendanna Donalds Trumps, sem býður sig fram fyrir repúblikana, og Kamölu Harris, sem býður sig fram fyrir demókrata, á ABC-sjónvarpsstöðinni í fyrrinótt.
Þetta sýna gögn frá greiningarfyrirtækinu Nilesen. Þessar tölur ná aðeins yfir þá sem fylgdust með kappræðunum í sjónvarpi en fjölmargir horfðu á kappræðurnar á YouTube eða á vefsíðum bandarískra fréttamiðla.
Í júní þegar Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og Trump tókust á í eftirminnilegum kappræðum fylgdust 53 milljónir manna með útsendingunni á CNN.
Áhorfið í þessari viku náði þó ekki að toppa síðasta áhorfsmet sem var slegið árið 2016 þegar 84 milljónir fylgdust með kappræðum Hillary Clintons og Trumps.