„Algjörlega óásættanlegt“

Átján féllu í árásinni í gær.
Átján féllu í árásinni í gær. AFP/Eyad Baba

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, kveðst sleginn yfir fregnum af árás Ísraelshers á skólabyggingu á Gasa í gær sem varð átján að bana, þar af sex starfsmönnum Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA).

„Þessi vanvirðing gagnvart grundvallar ákvæðum í alþjóðlegum mannúðarlögum, sérstaklega sem kveða á um verndun borgara, getur ekki og ætti ekki að vera liðin af alþjóðasamfélaginu,“ sagði Borrell á samfélagsmiðlinum X. 

Ættu aldrei að vera skotmörk

Þýsk stjórnvöld sögðu árásina „algjörlega óásættanlega“. UNRWA væri að sinna bráðnauðsynlegu hjálparstarfi á Gasa og bæri skylda til að gera það.

„Starfsmenn mannúðarsamtaka ættu aldrei að verða fórnarlömb flugskeyta,“ sagði í færslu utanríkisráðuneytis Þýskalands á X.

Kom fram að Ísraelsher bæri skylda til að vernda starfsmenn Sameinuðu þjóðanna og annarra sem sinna hjálparstörfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert