Viðbragðsaðilar segja átján hafa fallið í árás Ísraelshers á skólabyggingu í Nuseirat á Gasa í gær. Eru átján til viðbótar sagðir særðir. Meðal þeirra sem eru látnir eru starfsmenn á vegum Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA).
Ísraelsher segist hafa hæft stjórnstöð Hamas-samtakanna.
Frá því að þessi miklu átök á Gasa hófust fyrir liðlega ári hefur Al-Jawni-skólinn í Nuseirat nokkrum sinnum verið skotmark árása Ísraelshers.
Í síðustu árásinni var skólabyggingin jöfnuð við jörðu en þar höfðu Sameinuðu þjóðirnar komið upp starfstöð og höfðu íbúar á Gasa leitað þar skjóls.
Í tilkynningu á samfélagsmiðlinum X kom fram að sex starfsmenn UNRWA hefðu látið lífið í tveimur árásum á skólann og nágrenni hans. Mun það vera mesta mannfall meðal starfsmanna stofnunarinnar í einum atburði.
„Meðal þeirra sem féllu var stjórnandi skýlis UNRWA og aðrir í hans teymi sem tóku þátt í að aðstoða fólk á vergangi,“ sagði í færslu á X.
„Við verðum að vernda skóla og aðrir borgaralega innviði, þeir eru ekki skotmörk.“
Í yfirlýsingu frá Ísraelsher kom fram að árásin hefði verið „nákvæm“ og að hann hefði hæft stjórnstöð Hamas í Al-Jawni-byggingunni. Ekki kom fram hversu margir hefðu fallið en fram kom að herinn hefði gripið til fjölda aðgerða til að lágmarka skaðann gagnvart almennum borgurum.
Þeir sem lifðu árásina af sneru aftur á vettvang árásarinnar til að endurheimta lík ástvina. Í samtali við fréttamenn AFP-fréttaveitunnar segjast þeir hafa neyðst til að stíga yfir útlimi í rústunum.
„Ég get varla staðið á fætur,“ sagði einn maður sem hélt á líkpoka.
„Við höfum gengið í gegnum helvíti í næstum 340 daga. Það sem við höfum orðið vitni að á þeim tíma – við höfum ekki séð það enn þá í Hollywood-myndum, það sem við erum að sjá núna á Gasa.“