Börnin upplifðu „ólýsanlegan hrylling“

Börnin eru sögð hafa sætt hrottalegu ofbeldi á heimilunum.
Börnin eru sögð hafa sætt hrottalegu ofbeldi á heimilunum. AFP/Mohd Rasfan

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, segir að á fimmta hundrað barna sem bjargað var af umönnunarheimilum í Malasíu í gær hafi upplifað „ólýsanlegan hrylling“ á meðan þau dvöldu þar.

Rannsóknir sýna að börnin, sem voru á aldrinum 1 til 17 ára, máttu þola bæði kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu starfsmanna og voru jafnframt neydd til að kynferðislega misnota hvert annað.

„Þessi börn hafa upplifað ólýsanlegan hrylling og munu þurfa langvarandi læknis- og áfallameðferð og andlegan stuðning fagfólks,“ sagði Robert Gass, fulltrúi UNICEF í Malasíu, í samtali við AFP-fréttastofuna.

„Skaðinn sem þau hafa orðið fyrir er mikill og mun í mörgum tilfellum taka þau alla ævina að vinna úr afleiðingunum,“ sagði Gass jafnframt.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/09/11/komu_morg_hundrud_bornum_til_bjargar/

GISB neitar því að hafa rekið heimilin.
GISB neitar því að hafa rekið heimilin. AFP/Mohd Rasfan

Neita að hafa rekið heimilin

Ráðist var í umfangsmiklar lögregluaðgerðir í gær sem beindust að nokkrum góðgerðarstofnunum sem reka heimili í ríkjunum Selangor og Negri Sembilan. Um eitt þúsund lögreglumenn og starfsmenn annarra stofnana tóku þátt í aðgerðunum þar sem 170 voru handteknir, þar á meðal kennarar í íslömskum trúfræðum og umsjónarmenn heimilanna.

Lögreglan hefur gefið út að heimilin hafi verið rekin af íslömsku viðskiptafélagi, GISB, sem hefur tengsl við trúarhóp sem hefur verið bannaður í Malasíu. Félagið hefur hins vegar neitað því að heimilin séu á þeirra vegum og segir það ekki samræmast stefnu þess að ganga gegn gildum íslam og lögum.

Börnunum hefur verið komið tímabundið fyrir í þjálfunarmiðstöð lögreglu í höfuðborginni Kuala Lumpur þar sem þau gangast undir læknisskoðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert