Lögreglan í Þrándheimi í Noregi varar við stórhættulegu eiturlyfi í umferð í borginni í kjölfar þess er níu neytendur hafa verið lagðir inn á St. Olavs-sjúkrahúsið til meðhöndlunar síðasta sólarhringinn.
„Þetta er efni sem svipar til GHB [svokallaðrar smjörsýru, gamma hydroxybuterate], við höfum ekki komist í sýni af því til að greina það,“ segir Ketil Stene, varðstjóri í lögreglunni í Þrándheimi, við norska ríkisútvarpið NRK. Hann kveður muninn á GHB einkum felast í því að efnið óþekkta sé miklum mun sterkara.
GHB var upphaflega þróað sem svæfingarlyf en er nú víða framleitt ólöglega fyrir fíkniefnamarkað. Efnið hefur öndunarbælandi áhrif og er stórhættulegt – það er skammtað eftir líkamsþyngd og við ofskömmtun rennur þungur svefnhöfgi á neytandann sem sjaldnast á aðra valkosti en að leggjast út af eða missa meðvitund í annarri líkamsstöðu.
Hefur ástandið í fjölda tilfella reynst banvænt þar sem aðrir viðstaddir átta sig sjaldnast á því þegar hinn meðvitundarlausi hættir að anda.
„Ég hef aldrei upplifað annað eins, slíkt er umfangið. Níu manns á stuttum tíma er mikið,“ segir Kjetil Karlsen við NRK en hann starfar í ofskömmtunarteymi Þrándheims og er á leið í níunda ofskömmtunartilfellið þegar ríkisútvarpið nær af honum tali.
Telur ofskömmtunarteymið að óþekkta efnið sé GBL, gamma butyrolakton, sem er skylt GHB og raunar notað við framleiðslu þess. Eftir inntöku umbreytist GBL í GHB í líkamanum en er miklu sterkara og því enn háskalegra en það fyrrnefnda.