Efnahagsbrotadeild ítölsku lögreglunnar hefur flett ofan af glæpahring sem stundar þá iðju að selja falsaðar útgáfur tölvuleikja sem fóru með himinskautum í vinsældum á ofanverðri síðustu öld, í árdaga tölvuleikjaiðnaðar heimsins.
Að sögn lögreglunnar í Tórínó eru falsanirnar kínverskar að uppruna og umfang sjóræningjastarfsemi þessarar umtalsvert, en um það bil 12.000 leikjatölvur hafa fundist og reyndust rúmlega 47 milljónir eintaka vinsælla tölvuleikja frá öldinni sem leið vistaðar í tækjunum. Er söluverðmæti leikjanna talið nema 47,5 milljónum evra, upphæð sem nemur rúmlega 7,2 milljörðum íslenskra króna.
„Leikirnir snúast um vel þekktar tölvuleikjapersónur frá níunda og tíunda áratugnum sem allar njóta verndar höfundarréttar,“ segir í yfirlýsingu ítölsku lögreglunnar þar sem enn fremur kemur fram að seljendur falsleikjanna hafi nýtt sér stór nöfn og fornar vinsældir leikjanna gömlu í krafti fortíðarþrárgildis þeirra sem upp á ensku kallast „retrogaming“.
Leikjatölvurnar sem lögregla lagði hald á víða um Ítalíu eru auk þess mótaðar í líki spilakassanna sem margir muna enn glöggt eftir og nutu vinsælda í söluturnum, á strætisvagnabiðstöðvum og í sérstökum spilakassasölum í Reykjavík fyrir margt löngu.