Lögregluna í Stokkhólmi grunar að einn og sami maðurinn hafi verið að verki í þremur líkamsárásarmálum í Hässelby í norðvesturhluta borgarinnar undanfarið eftir að myndskeið af árásunum birtust í lokuðum hópum á samfélagsmiðlum.
Alvarlegasta árásin fram til þessa, sem nú er rannsökuð sem tilraun til manndráps, var gerð á mann á níræðisaldri í hjólastól á miðvikudagskvöldið sem stunginn var margsinnis í bakið með eggvopni.
Á myndskeiði af árásinni, sem augljóst er af sjónarhorninu að árásarmaðurinn tekur sjálfur á síma sinn, má sjá hvernig komið er aftan að gamla manninum og hann stunginn ítrekað í bak. Var hann í kjölfarið færður á sjúkrahús en ekki er vitað hve alvarlegir áverkar hans eru eftir því sem sænska ríkisútvarpið SVT greinir frá.
Það er dagblaðið Aftonbladet sem segir frá þeim grunsemdum lögreglu að árásarmaðurinn sé sá sami í öllum tilvikum – í hinum tveimur var manni annars vegar hrint inn í runna og það myndað en hins vegar var atlaga gerð að eldri konu um miðjan júlí og henni veittir minni háttar áverkar. Gat hún greint lögreglu frá því að árásarmaðurinn hefði verið grímuklæddur og vopnaður hníf.
Kveðst Aftonbladet hafa heimildir fyrir því að fleiri árásir, allar minni háttar, hafi átt sér stað undanfarið á sama svæði.