Íslendingur í Vín: „Aldrei upplifað annað eins“

Mæðgurnar gerðu sér glaðan dag þrátt fyrir veður og kíktu …
Mæðgurnar gerðu sér glaðan dag þrátt fyrir veður og kíktu á söfn Vínarborgar. Samsett mynd/AFP/Georg Hochmuth/Aðsend

„Ég held ég hafi bara aldrei upplifað annað eins,“ segir Veronika Steinunn Magnúsdóttir, háskólanemi í Vínarborg, en stormurinn Boris hefur leikið íbúa þar grátt yfir helgina.

„Maður hélt af því að maður væri Íslendingur þá gæti maður höndlað smá storm. Að þetta væri bara eins og gul viðvörun eða eitthvað, en þetta var aðeins meira en það.“

Sagt að halda sig innandyra yfir helgina

Óveðrið herjar á Mið- og Austur-Evrópu um þessar mundir. Einn drukknaði í Póllandi og austurrískur slökkviliðsmaður lét lífið í flóðum eftir miklar rigningar vegna óveðursins. Fimm eru látnir í Rúmeníu og fjögurra er saknað í Tékklandi. Þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna óveðursins.

Að sögn Veroniku er ástandið í Vínarborg ekki jafn slæmt í hennar hverfi eins og sums staðar annars staðar en að veðurviðvaranir séu engu að síður í gildi og talsverð hætta á að tré geti fallið í hvassviðrinu.

Veronika, sem stundar nám í þýsku, segir að kennari hennar hafi varað nemendur tungumálaskólans við veðrinu fyrir helgi. „Kennarinn sagði að við þyrftum að kaupa í matinn á föstudaginn og halda okkur innandyra yfir helgina.“

Móðirin óheppin með veður

Hún segir veðrið sérstaklega miður í ljósi þess að móðir hennar sé einmitt í heimsókn yfir helgina. Samkvæmt veðurspá eigi sól og blíðviðri að taka við á ný sama dag og móðir hennar snýr aftur heim á klakann.

Mæðgurnar hafi því ekki náð njóta alls sem Vínarborg hefur upp á að bjóða en þó reynt að gera gott úr aðstæðunum.

„Við reyndum bara að haga seglum eftir vindi og tókum safnadag. Það var alveg hellingur af fólki úti en reyndum bara að vera mest innandyra,“ segir Veronika. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka