Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, birti tíst á samfélagsmiðlinum Truth Social í dag þar sem hann sagðist hata söngkonuna Taylor Swift.
„ÉG HATA TAYLOR SWIFT!“ stóð í færslunni. Ekkert meira kom þar fram en ljóst er að þar var hann að bregðast við færslu Swift á Instagram þar sem hún sagðist ætla að kjósa andstæðing Trumps í komandi forsetakosningum, Kamölu Harris.
Stuðningsyfirlýsingar frægs fólks við frambjóðendur hafa oftast ekki mjög mikil áhrif á kosningar í Bandaríkjunum en Swift er gríðarlega vinsæl í landinu. Hún er með yfir 100 milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum og þar af líkuðu 10 milljónir við færslu hennar um Kamölu Harris á Instagram.
„Að fara í hart við Taylor Swift er virkilega slæm hugmynd í kosningabaráttu,“ sagði einn sem setti inn færslu á X. „Taylor verður ekki reið, hún jafnar metin.“
Ekki er ljóst hvað Trump vonast til að ná fram með ummælum sínum um Swift en hugsanlegt er hann telji hvaða umræðu sem er betri en enga.