Huw Edwards, sem er fyrrverandi fréttaþulur hjá BBC, hlaut í dag hálfs árs skilorðsbundinn dóm fyrir að hafa haft undir höndum kynferðislegar og aðrar óviðeigandi ljósmyndir af börnum.
Edwards, sem er 63 ára gamall, naut bæði virðingar og trausts sem fréttaþulur breska ríkisútvarpsins en ferill hans er nú í molum vegna málsins.
Í júlí játaði hann að hafa fengið sendar myndir af börnum frá því í desember 2020 til ágúst 2021.
Dómarinn Paul Goldspring sagði við dómsuppkvaðninguna að Edwards ætti í mikilli hættu á að verða fyrir ofbeldi af hálfu annarra fanga ef hann hefði verið dæmdur til fangelsisvistar. Þá væri einnig hætta á því að hann tæki eigið líf. Goldspring tók jafnframt fram að Edwards hefði sýnt iðrun.
Edwards viðurkenndi að hafa tekið á móti 41 ljósmynd af börnum í gegnum spjallforritið WhatsApp. Myndirnar fékk hann frá 25 ára gömlum dæmdum barnaníðingi. Tekið er fram að sjö myndir hafi verið sérstaklega alvarlegar.
Börnin á myndunum voru flest á aldrinum 13-15 ára og eitt þeirra á milli sjö og níu ára að aldri.
Dómarinn sagði að þrátt fyrir að brotin væru mjög alvarleg þá væri ekki þörf á að fangelsa Edwards. Hann var jafnframt dæmdur til að sækja námskeið fyrir kynferðisbrotamenn í 40 daga auk 25 daga meðferðar.
Verjandi Edwards, lögmaðurinn Philip Evans, sagði að Edwards hefði viðurkennt að myndirnar væru afar ógeðfelldar og að hann væri miður sín að hafa að hafa glatað trausti fólks.
Þyngsta refsing í máli af þessum toga er tíu ára fangelsi.
Edwards var handtekinn í nóvember í fyrra og ákærður í júní. Það var þó ekki fyrr en í júlí sem fyrst var greint opinberlega frá málinu, aðeins örfáum dögum áður en dómsmálið hófst.
Edwards, sem er velskur, sagði upp hjá BBC í apríl og vísaði þá til þess að það væri af læknisfræðilegum ástæðum. Þá hafði hann starfað hjá breska ríkisútvarpinu í 40 ár.