Réttarhöld um framtíð fjölmiðlaveldisins hafin

Fjölmiðlaeigandinn Rupert Murdoch sést hér á milli tveggja sona sinna, …
Fjölmiðlaeigandinn Rupert Murdoch sést hér á milli tveggja sona sinna, Lachlan og James. AFP

Réttarhöld hófust í dag þar sem auðkýfingurinn Rupert Murdoch berst gegn þremur börnum sínum um framtíð eins valdamesta fjölmiðlafyrirtækis í hinum enskumælandi heimi.

Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Í réttarhöldunum verður tekist á um hver muni fara með völd fjölmiðlasamsteypanna News Corp og Fox News eftir að Murdoch, sem er eigandi þeirra, fellur frá.

Fjögur elstu börn Murdochs áttu upprunalega að fá yfirráð yfir fyrirtækjunum þegar hann myndi deyja samkvæmt fyrirkomulagi frá árinu 1999.

Elsti sonurinn gæti hlotið öll völd

Seint á síðasta ári breytti Murdoch óvænt skilmálunum til að tryggja að Lachlan Murdoch, elsti sonur Ruperts og valinn arftaki hans, yrði áfram við völd yfir sjónvarpsstöðvunum og dagblöðunum sem heyra undir News Corp, þegar faðirinn fellur frá.

Greint hefur verið frá að Murdoch fengi aðeins að gera ofangreindar breytingar ef hann gæti sýnt fram á að hann starfaði í góðri trú og einvörðungu í þágu erfingja sinna og munu réttarhöldin nú skera úr um það.

Ef Murdoch hefur betur í réttarsalnum mun atkvæðaréttur barna hans, þeirra Prudence, Elisabeth og James Murdoch, verða enginn og Lachlan fær þá öll völd þegar faðir hans deyr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert