Evrópusambandið hefur komið Portúgal til aðstoðar við að ráða niðurlögum skógarelda sem nú geisa í Aveiro-héraðinu í norðurhluta landsins og hafa stjórnvöld í Frakklandi, Grikklandi á Ítalíu og Spáni þegar sent slökkviliðsmannskap og -búnað á vettvang en um 5.000 manna lið barðist í gær við að ráða niðurlögum eldanna.
„Við sendum átta slökkviliðsflugvélar undir merkjum almannavarnaáætlunar okkar með hraði til aðstoðar slökkviliðum á staðnum,“ skrifaði Ursula von Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á samfélagsmiðilinn X eftir að hjálparkalla barst frá Portúgal vegna eldanna.
Einn slökkviliðsmaður er þegar látinn en sá fékk hjartaáfall á meðan hann tók sér matarhlé greinir portúgalska innanríkisráðuneytið frá en auk þess hafa tólf slasast, þar af tveir alvarlega.
Heimili hafa þegar orðið skógareldunum að bráð auk þess sem þeir hafa stöðvað umferð á nokkrum hraðbrautum.
„Ástandið er ekki stjórnlaust en það er flókið. Dagurinn í dag verður erfiður og það verður morgundagurinn einnig,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Andre Fernandes, yfirmanni almannavarna Portúgals, en þó hefur verið minna um skógarelda í landinu í ár en síðustu ár.
Hafa stjórnvöld aukið framlög til eldvarna svo nemur tíföldun frá árinu 2017 en það ár létust hundruð manna í skógareldum.