„Við erum skíthrædd“

Logahafið skríður nær húsi í Ribeira de Fraguas í Albergaria-al-Velha …
Logahafið skríður nær húsi í Ribeira de Fraguas í Albergaria-al-Velha í Aveiro í Norður-Portúgal í gær. Skógareldar hafa þjarmað að íbúum þar, heimt nokkur mannslíf og sviðið áður frjósöm landbúnaðarsvæði til ólífis. AFP/Patricia de Melo Moreira

Íbúar portúgalska þorpsins Busturenga í hinu norðlæga Aveiro-héraði eiga ekki sjö dagana sæla í þeim hamförum sem illviðráðanlegir skógareldar hafa búið þeim undanfarna daga í steikjandi sumarhitanum og kveður nú svo rammt að, að hnausþykkur reykjarmökkurinn byrgir íbúunum sýn svo skyggni takmarkast við fáeina metra.

Gæludýr og verðmætustu eigur eru nánast það eina sem svigrúm reyndist til að hafa á brott í gær af þeim heimilum sem næst stóðu hvæsandi logahafinu sem engu eirir. Víða mátti þá sjá til örvæntingarfullra íbúa Busturenga þar sem þeir hlupu um og tæmdu úr vatnsfötum yfir eldlínuna sem komin var háskalega nærri heimilum þeirra og öllum eigum.

„Ég hef aldrei séð annað eins,“ segir Maria Fatima við fréttamenn AFP-fréttastofunnar, 67 ára gömul kona í þorpinu. „Eldurinn umlukti þorpið og slökkviliðsflugvélarnar komust hvergi nærri vegna reykjarmakkarins.“

Komin á vonarvöl

Víðfeðm akuryrkju- og önnur landbúnaðarsvæði eru nú sviðin jörð auk þess sem skógareldarnir í Aveiro hafa krafist sjö mannslífa það sem af er.

„Við erum skíthrædd,“ segir Maria Ribeiro, 82 ára gömul kona sem ræðir við AFP á meðan hún horfir tárvotum augum á eldtungurnar færast nær húsum þorpsbúa. Ribeiro hefur misst mikið – en ekki allt. „Allt landið mitt er brunnið, ég er heppin að húsið mitt slapp,“ segir gamla konan á meðan hún hagræðir reykgrímunni sem hún ber fyrir vitum sér og þurrkar tár af vanga.

„Við erum skelfingu lostin vegna þess að við erum komin á vonarvöl. Enginn kemur okkur til hjálpar,“ segir hún og fréttamaður AFP lýsir því í texta sínum er slökkviliðsbifreiðar aka hjá á ógnarhraða með æðsta forgangi – velferð og framtíð heils þorps er í húfi.

Eiga erfitt með að anda

„Vindurinn er það versta,“ segir þriðji viðmælandinn í Busturenga, Maria do Carmo Carvalho sem stendur á sjötugu, bóndi alla sína starfsævi og stödd við býli sitt er hún ræðir við AFP og lítur um leið eftir akri sínum sem enn er óbrunninn.

Kveðst Carvalho aldrei hafa upplifað nokkuð er kemst í hálfkvisti við þá ógn er nú steðjar að litla þorpinu hennar þar sem kæfandi brunalyktin yfirgnæfir allt svo erfitt er um andardrátt utandyra.

Slökkviliðsflugvélar frá nágrannaríkinu Spáni eru komnar til Portúgals sem hluti af björgunaraðgerðum Evrópusambandsins sem mbl.is fjallaði um fyrr í dag. Fleiri ríki hafa enn fremur brugðist við og sent mannskap, flugvélar og búnað til nágrannans á Íberíuskaganum þar sem hver mínúta skiptir nú máli í héraðinu Aveiro.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert