„Ég áfrýja,“ sagði tæplega fertug kona samstundis er dómari við Héraðsdóm Óslóar í Noregi hafði lesið henni dómsorðið síðdegis í gær og dæmt hana í tólf ára fangelsi fyrir að myrða 25 ára gamlan kærasta sinn, Mathias Stormbo MacDonald, í Grünerløkka-hverfinu í höfuðborginni 21. maí í fyrra. Dánarorsök MacDonalds var hnífstunga í brjósthol.
Verjandi konunnar, Ole Petter Drevland, segir í samtali við Dagbladet að þau skjólstæðingur hans geti ekki fallist á sönnunarmat réttarins, en Johan Strand Moldestad héraðssaksóknari kveður dóminn í samræmi við forsendur ákæruvaldsins.
Auk fangelsisrefsingar er dæmdu gert að greiða föður fórnarlambsins samtals 478.000 krónur í skaða- og miskabætur, jafnvirði tæpra 6,2 milljóna íslenskra króna.
„Mér er létt,“ segir faðirinn, Steve MacDonald, við Dagbladet. Hann er búsettur í Finnlandi en kom til Noregs til að sitja réttarhöldin þótt þungbært væri að hans sögn. Nú bíði hans að búa sig andlega undir áfrýjunarmálið er þar að kemur. „Ég vil nota tækifærið og þakka öllum vinum Mathiasar í Noregi fyrir stuðninginn,“ segir faðirinn hrærður.
Dæmda neitaði sök við allan rekstur málsins en kveðst þó ekki muna verknaðarkvöldið í neinum smáatriðum. Þau Mathias hefðu neytt kókaíns, amfetamíns og GHB, eða smjörsýru. Við lögreglumann sem fyrstur kom á vettvang sagði hún „Ég gerði þetta,“ eða eitthvað áþekkt, rifjaði lögreglumaðurinn upp.
Aðrir lögregluþjónar báru fyrir dómi að dæmda hefði margsinnis haft uppi svipuð ummæli á meðan hún sat í vörslu þeirra á lögreglustöðinni í Grønland í kjölfar handtökunnar.
Við aðalmeðferð málsins lýsti konan sambandi þeirra MacDonalds sem stormasömu og kvað hann ítrekað hafa verið ofbeldisfullan. Engin ofbeldistilvik voru þó tilkynnt lögreglu.
Dró Drevland verjandi upp þrjár kenningar um atvik við aðalmeðferðina. Að MacDonald hefði sjálfur stungið sig til bana, ákærða stungið hann í nauðvörn eða atvikið verið hreint slys.
Að virtum framburði vitna og ákærðu, einkum orðum hennar strax eftir handtökuna, mat fjölskipaður dómur það sem svo, að sekt hennar væri hafin yfir skynsamlegan vafa. „[Framburðurinn] bendir til þess að ákærða hafi framið verknaðinn,“ segir meðal annars í dómsorði.
X