Segjast hafa skotið niður 54 úkraínska dróna

Slökkt í bíl eftir drónaárás Úkraínumanna á Belgorod í byrjun …
Slökkt í bíl eftir drónaárás Úkraínumanna á Belgorod í byrjun mánaðarins. AFP

Rússar segjast hafa skotið niður 54 úkraínska dróna í nótt. Helmingur þeirra hafi verið yfir Kúrsk-héraði þar sem úkraínskar hersveitir hafa sótt fram síðan í ágúst.

„Loftvarnarkerfi eyðilögðu 54 úkraínska dróna,“ sagði rússneska varnarmálaráðuneytið í tilkynningu og bætti við að 27 þeirra hefðu verið skotnir niður yfir Kúrsk-héraði. Hinir voru skotnir niður yfir nágrannahéruðunum Bryansk, Smolensk, Belgorod og Oryol.

Í Belgorod særðust fjórir og voru þeir fluttir á sjúkrahús eftir drónaárás, að sögn ríkisstjórans Vyacheslav Gladkov á Telegram.

Rússar hafa undanfarið tilkynnt nánast daglega um skot á drónum frá Úkraínu. Stjórnvöld í Úkraínu segja drónaárásirnar gerðar í hefndarskyni vegna árása Rússa á landið allt frá innrás þeirra í febrúar 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert