Bandaríska flugfélagið Delta hefur beðist afsökunar eftir að flugvél þess þurfti að nauðlenda vegna vandamála með þrýsting í farþegarýminu. Þarlendir fjölmiðlar segja að blætt hafi úr nefjum og eyrum farþega.
Bandarísk flugmálayfirvöld segjast vera að rannsaka atvikið, sem gerðist síðastliðinn sunnudag í flugi frá Salt Lake City í ríkinu Utah til borgarinnar Portland í Oregon-ríki.
Delta sagði í yfirlýsingu til AFP að flugvélin, með 140 farþega um borð „gat ekki haldið uppi þrýstingi í meira en tíu þúsund fetum“.
„Við biðjum viðskiptavini okkar innilega afsökunar vegna þess sem gerðist í flugi 1203 þann 15. september,“ sagði í yfirlýsingunni.
Sjónvarpsstöðin KSL TV tók viðtöl við farþega vélarinnar sem sögðust hafa séð fólk grípa um höfuð sín vegna sársauka eða vegna þess að það blæddi úr eyrum þeirra og nefjum skömmu eftir að flugvélin tók á loft.
„Ég greip um eyrað mitt og leit á höndina mína og hún var blóðug,“ sagði farþeginn Jaci Purser, sem fann fyrir miklum sársauka í eyranu.
Flugvélin, af tegundinni 737-900 fór aftur í loftið síðar þennan sama dag eftir að gert hafði verið við hana, að sögn Delta.