Sænski áfrýjunardómstóllinn hovrätten, sem samsvarar Landsrétti á Íslandi, hefur staðfest lífstíðardóm héraðsdóms yfir tveimur sakborningum af fjórum í manndrápsmáli sem upp kom í miðbæ Farsta í Suður-Stokkhólmi í fyrrasumar en þar létu tveir vegfarendur lífið þegar árásarmennirnir skutu 21 skoti úr hríðskotabyssu.
Talið er að mennirnir hafi ekki haft ákveðið skotmark í huga en sá sem gegndi hlutverki ökumanns sagði að sögn vitna við skyttuna: „Taktu eins marga og þú getur.“ Við yfirheyrslur hjá lögreglu kvaðst skotmaðurinn hafa fengið afhentar myndir af nokkrum einstaklingum sem atlagan skyldi beinast að. Hann hafi hins vegar ekki vitað á þeim nokkur deili.
Fjöldi annarra vegfarenda hlaut sár í atlögunni. Þeir sem hlutu fangelsi til lífstíðar voru sjálf skyttan og ökumaður sem kom þeim af vettvangi eftir ódæðið. Hinir tveir hlutu tæplega sextán ára dóma fyrir samverknað við manndráp og samverknað við manndrápstilraun.
Lífstíðardómum í Svíþjóð, sem í framkvæmd eru fangelsisrefsing milli 18 og 25 ára að lengd, hefur fjölgað undanfarin ár og hlutu 27 sakborningar slíkan dóm fyrstu tíu mánuði ársins 2022 en til samanburðar má hafa að árið 2003 sátu alls 76 fangar í lífstíðarfangelsi í landinu öllu.
SVT-II (annar þeirra sem létu lífið var ljósmyndari frá Eritreu)
SVT-III (Elias var aðeins 15 ára)