Fjarskiptatæki um alla borg sprungu samtímis

Maður heldur á talstöð sem hann hefur fjarlægt rafhlöðuna úr …
Maður heldur á talstöð sem hann hefur fjarlægt rafhlöðuna úr við útför eins fórnarlamba sprengjutilræðanna í Beirút í gær og fyrradag. AFP/Anwar Amro

Ísraelar hafa ekki tjáð sig einu orði um sprengjutilræðin gegn vígamönnum Hezbollah-samtakanna í Líbanon sem komu í tveimur banvænum bylgjum í gær og fyrradag og urðu 32 að bana auk þess að særa yfir 3.000 manns víða um höfuðborgina Beirút.

Stjórnvöld í Íran styðja Hezbollah með ráðum og dáð sem þar með teljast til erkifjenda Ísraela í þeim væringum sem nú eiga sér stað.

Í atlögunni sprakk í fyrstu umferð fjöldi símboða sem Hezbollah-liðar báru á sér og létust þá tólf manns, en í gær sprungu öflugar sprengjur í talstöðvum, mun stærri tækjum og þar með mun öflugri sprengingar sem kostuðu tuttugu mannslíf.

Sprengingarnar urðu samtímis báða dagana svo ljóst er að um þaulskipulagða aðgerð var að ræða og hefur Hassan Nasrallah leiðtogi Hezbollah boðað ávarp til líbönsku þjóðarinnar í dag sem ráðgert er að ógrynni manns fylgist með.

Höfðu áhyggjur af öryggi tækjanna

Upptökur úr öryggismyndavélum sýna vel þann glundroða, eyðileggingu og harm sem sprengingarnar ollu er þær komu eins og skrattinn úr sauðarleggnum yfir Hezbollah-liða sem almenna borgara, þar á meðal fjölda kvenna og barna.

Höfðu liðsmenn Hezbollah áhyggjur af öryggismálum tengdum fjarskiptatækjum sínum þegar áður en til árásanna kom í kjölfar hárnákvæmra árása Ísraelshers á lykilstjórnendur samtakanna síðustu mánuði. Er nú ljóst að áhyggjurnar reyndust á rökum reistar.

Frá því eftir innrás Hamas-hryðjuverkasamtakanna palestínsku í Ísrael fyrir tæpu ári hafa ísraelskar hersveitir nær daglega skipst á skotum við Hezbollah-liða við landamæri Líbanons og Ísraels og þótt ríkin eigi ekki formlega í stríði hafa skærur þessar orðið hundruðum að bana á tímabilinu.

Átt við tækin í upprunalandi

„Þyngdarpunkturinn þokast norður,“ sagði ísraelski varnarmálaráðherrann Yoav Gallant í gær og vísaði þar til þess að norðurlandamæri Ísraels liggja að Líbanon.

Símboðarnir sem sprungu höfðu nýlega verið fluttir inn eftir því sem ónafngreindur heimildarmaður úr röðum Hezbollah greinir AFP-fréttastofunni frá og telur sá að átt hafi verið við þá í framleiðslulandinu en boðarnir komu frá taívanska framleiðandanum Gold Appollo sem aftur heldur því fram að ungverski samstarfsaðilinn BAC Consulting KFT hafi framleitt tækin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert