25 ára maður skotinn til bana í Svíþjóð

Lögreglan segir að rannsókninni miði vel.
Lögreglan segir að rannsókninni miði vel. mbl.is/Gunnlaugur

25 ára gamall karlmaður var skotinn til bana í bænum Hallstahammar í Svíþjóð á áttunda tímanum í gærkvöldi. Einn hefur verið handtekinn grunaður um aðild að morðinu.

Aftonbladet greinir frá.

Vitni segir að nokkrum byssuskotum hafi verið hleypt af. Nokkrir hringdu í neyðarlínuna strax í kjölfar árásarinnar.

„Rétt áður en við fórum í bílinn heyrðum við hvell. Tíu sekúndum seinna komu fjögur eða fimm skot í viðbót,“ segir eitt vitnið í samtali við Aftonbladet.

Rannsókn lögreglu miðar vel 

Annar maður sem átti leið hjá heyrði byssuhvellina, stoppaði bílinn sinn og reyndi að koma fórnarlambinu til bjargar með því að reyna endurlífgunartilraunir.

„Það var fyrsta hugsunin, að bjarga honum ef hægt væri,“ sagði Sami Nikula í samtali við Aftonbladet.

Lögreglan sagði í morgun að rannsókninni miðaði vel og búið væri að afla ýmissa sönnunargagna. Rannsóknin væri þó enn á frumstigi.

Héraðsmiðillinn VLT greinir frá því að lögreglan sé með mann í haldi á þrítugsaldri, sem er grunaður um aðild að morðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert