Töluverð fjölgun hefur orðið í hópi þeirra skotvopnaeigenda sem eru demókratar. Árið 2010 voru 22,5% demókrata skotvopnaeigendur en árið 2022 var sú tala komin upp í 29,2%.
Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal.
Skotvopn er á heimili 55,4% repúblikana og rétt rúmlega 30% óflokksbundinna eru með skotvopn á sínu heimili, samkvæmt könnun sem NORC framkvæmir árlega í samstarfi við Chicago-háskólann.
Miðstöð um lausnir við skotvopnaofbeldi hjá John Hopkins-háskólanum gerði könnun á síðasta ári meðal 3.000 Bandaríkjamanna. Fram kom að 11% af þeim sem tóku þátt í könnuninni höfðu keypt byssu frá árinu 2020.
Á meðal þeirra sem skilgreindu sig sem demókrata var um helmingur að kaupa sér sitt fyrsta skotvopn á ævinni, samanborið við aðeins um 25% af repúblikönum.
Komandi forsetakosningar gætu orðið þær fyrstu þar sem frambjóðendur demókrata eru bókstaflegt andlit skotvopnaeigenda. Kamala Harris, varaforseti og forsetaframbjóðandi demókrata, kom mörgum á óvart í kappræðunum 10. september þegar hún sagði:
„Við Tim Walz erum báðir byssueigendur.“ Harris á skammbyssu en Walz, varaforsetaefni demókrata, er mikill skotveiðimaður.
Fyrir fjórum áratugum voru skotvopnaeigendur í Demókrataflokknum að jafnaði hvítir karlmenn, þar á meðal starfsmenn í bílaverksmiðjum og stáliðnaðarmenn, sem ólust upp við skotveiðar. Í dag er hópur skotvopnaeigenda mun fjölbreyttari.
Ef litið er til kynþátta þá var mesta skotvopnaaukning árið 2023 á meðal svartra Bandaríkjamanna, samkvæmt National Shooting Sports Foundation.
Þá voru konur voru tæplega helmingur skotvopnakaupenda frá 2019 til 2021 samkvæmt könnun sem gerð var af prófessorum við Harvard og Northeastern-háskólann.
Í fréttinni eru tekin viðtöl við ýmsa demókrata, forsvarsmenn samtaka fyrir frjálslynda skotvopnaeigendur og mannfræðinga. Fram kemur að ýmsar ástæður séu fyrir því að skotvopnaeign sé að aukast meðal demókrata og minnihlutahópa.
Algengustu ástæðurnar eru hlutir á borð við aukið ofbeldi og meiri spenna í bandarísku samfélagi.
Í hinsegin samfélaginu óttast sumir hatursglæpi, gyðingar hafa áhyggjur af palestínskum aðgerðarsinnum og svartir óttast ofbeldi í nærumhverfi sínu og sumir lögregluna.