Á þriðja tug létust þegar eldur kviknaði í rútu

23 létu lífið þegar eldur kviknaði í rútunni.
23 létu lífið þegar eldur kviknaði í rútunni. AFP

Í það minnsta 23 létust þegar eldur kviknaði í rútu á þjóðvegi í norðurhluta Bangkok í Taílandi í dag.

Í rútunni voru 38 börn og sex kennarar en börnin voru í skólaferðalagi þegar eldurinn kviknaði sem breiddist hratt út í rútubifreiðinni.

„Við fundum 23 lík inni í rútunni,“ sagði Trairong Phiwpan lögreglumaður við fréttamenn en lík fórnarlambanna voru svo illa brennd að ekki var hægt að staðfesta hvort um fullorðna eða börn var að ræða. Sum barnanna sem komust lífs af eru illa brennd á andliti, munni og augum.

Talið er að þetta sé eitt mannskæðasta umferðarslys í Taílandi í áratug en að jafnaði verða 20 þúsund banaslys á ári í umferðinni í landinu.

Lögreglan leitar að bílstjóra rútunnar sem flúði af vettvangi að sögn Kitrat Phanphet, starfandi ríkislögreglustjóra. Talið er dekk hafi sprungið á rútunni og við það hafi hún rekist á vegrið áður en kviknaði í henni.

Börnin voru í skólaferðalagi en í rútunni voru 38 börn …
Börnin voru í skólaferðalagi en í rútunni voru 38 börn og sex kennarar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert