Þrír drengir eru særðir eftir hnífstunguárás fyrr í dag fyrir utan dagheimili í Zürich. Einn drengjanna er sagður alvarlega særður eftir árásina.
Lögregla hefur handtekið 23 ára kínverskan mann í tengslum við árásina.
Frumrannsókn lögreglu leiddi í ljós að maðurinn veittist að börnunum, sem voru í umsjón starfsmanns dagheimilisins, fyrir utan dagheimilið við íbúðargötuna Berninastrasse í norðurhluta Zürich.
Starfsmaðurinn og annar maður voru fljótir til, yfirbuguðu árásarmanninn og héldu honum föstum þar til viðbragðsaðilar mættu á vettvang.
Hlúð var á vettvangi að drengjunum sem urðu fyrir árás mannsins og voru þeir síðan fluttir á sjúkrahús. Einn er sagður alvarlega særður en hinir tveir minna særðir.