LAM-safnið í Lisse í Hollandi hefur endurheimt listaverk sem samanstendur af tveimur tómum bjórdósum, eftir að starfsmaður safnsins henti þeim, þar sem hann taldi þær vera rusl.
Verkið, sem ber heitið „All the Good Times We Spent Together“ eða „Allar góðu stundirnar sem við áttum saman“ eftir franska listamanninn Alexandre Lavet, gæti við fyrstu sýn litið út fyrir að vera tvær tómar og yfirgefnar dósir. Við nánari athugun má hins vegar sjá að dósirnar eru handmálaðar af mikilli nákvæmni.
Listrænt gildi þeirra fór hins vegar fram hjá nýjum starfsmanni safnsins sem sá þær yfirgefnar í lyftu og henti í ruslafötuna.
Talsmaður safnsins segir listaverkinu hafa verið stillt upp í lyftunni til að koma safngestum á óvart, en það er stefna safnsins að setja listaverkin einnig upp á óhefðbundnum stöðum á safninu.
„Við reynum að koma gestum okkar stöðugt á óvart,“ sagði Elisah van den Bergh, umsjónarmaður safnsins, í samtali við AFP-fréttastofuna.
Bergh tók eftir því að dósirnar voru horfnar þegar hún kom aftur í vinnuna eftir stutt frí. Fyrir tilviljun sá hún þær svo í ruslinu skömmu áður en farið var með það út.
Verkið hefur nú verið sett á hefðbundnari stað í bili en líklegt er að því verði aftur fundinn óhefðbundinn staður þegar fram líða stundir.
Engir eftirmálar verða af atvikinu, en starfsmaðurinn sem henti verkinu í ruslið er sagður ekki hafa vitað betur, enda hafði hann unnið á safninu í skamman tíma. Hann hafi einfaldlega verið að sinna starfi sínu við að hreinsa til.