Þrettán manns hafa látist síðan í lok september í Rúanda vegna Marburg-veirunnar sem er af ætt þráðveira og veldur svokallaðri blæðandi veiruhitasótt. Þá hafa 58 tilfelli veirunnar verið tilkynnt. Ekkert bóluefni eða lyf er til gegn Marburg-veiru og dánartíðni af völdum sjúkdómsins er há.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Embætti landlæknis.
Segir þar að veiran hafi ekki áður greinst í Rúanda þótt hún hafi greinst í öðrum Afríkuríkjum svo sem Angóla, Kongó, Kenía, S-Afríku og Úganda.
Hafa heilbrigðisyfirvöld í Rúanda nú gripið til ýmissa aðgerða.
Kemur fram í tilkynningunni að veiran sé ekki bráðsmitandi og smitist ekki frá öndunarvegi heldur með snertingu við líkamsvessa frá veikum einstaklingi.
„Áhætta fyrir almenning sem ferðast frá Evrópu til Rúanda er talin lág en meiri fyrir þá sem fara til að starfa í heilbrigðisþjónustu Rúanda ef viðeigandi sóttvörnum er ekki beitt, þar með talið rétt notkun á hlífðarbúnaði,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að þeir sem hyggja á ferðalög til Rúanda séu beðnir um að kynna sér vel ástandið í landinu og fylgja ráðum þarlendra heilbrigðisyfirvalda.
„Þau sem koma frá Rúanda og fá sjúkdómseinkenni eftir komu heim (flensulík einkenni, háan hita, höfuð- og vöðvaverki, einkenni frá meltingarfærum) eru beðin að hafa samband við heilbrigðisþjónustu án tafar.“