Telja Norður-Kóreu hafa sent 10 þúsund hermenn

Mark Rutte segir norðurkóresku hermennina vera merki um að Pútín …
Mark Rutte segir norðurkóresku hermennina vera merki um að Pútín sé orðin örvæntingafullur. AFP/Mikaíl Metsel

Um tíu þúsund hermenn frá Norður-Kóreu stunda nú herþjálfun í Rússlandi, samkvæmt upplýsingum sem varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur undir höndum. Er það ríflega þrefaldur fjöldi sem áður hafði verið áætlaður.

Atlantshafsbandalagið varar nú við stigmögnun stríðsins í Úkraínu. Rússland og Norður-Kórea hafa undanfarna mánuði áréttað pólitískt og hernaðarlegt bandalag þjóðanna. 

Að sögn Sabrinu Singh, upplýsingafulltrúa Pentagon, telur ráðuneytið hermennina þjálfa í austurhluta Rússlands. Munu þeir líklega veita hersveitum skammt frá landamærum Úkraínu liðsinni á næstu vikum.

Sérfræðingar telja að í staðinn fyrir hermennina hafi Norður-Kóreu verið lofað aðgengi að ýmissi hernaðartækni, allt frá gervitunglum sem sinna eftirliti að kafbátum. Þá hefðu Kremlverjar hugsanlega lofað Norður-Kóreu vernd.

Fjöldinn gæti hækkað

„Hluti þessara hermanna hefur þegar fært sig nær Úkraínu og við höfum stöðugt meiri áhyggjur af því að Rússland ætli sér að beita þessum hermönnum í hernaðaraðgerðum eða til að styðja við hernaðaraðgerðir gegn úkraínskum hersveitum í Kúrsk-héraði Rússlands,“ sagði Singh.

Útilokar hún ekki að fjöldi norðurkóreskra hermanna muni vaxa „eftir því sem Pútín verður örvæntingafyllri“.

Áætlaður fjöldi var þrjú þúsund

Í síðustu viku taldi leyniþjónusta Úkraínuhers, HUR, að fyrstu norðurkóresku hermennirnir væru þegar komnir til Kúrsk-héraðs og væri þeim ætlað að styðja við aðgerðir Rússahers í héraðinu, þar sem Úkraínumenn hafa enn fótfestu.

John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, sagði í síðustu viku að áætlaður fjöldi hermanna frá Norður-Kóreu í Rússlandi væri þrjú þúsund. Varaði hann þá við því að hermennirnir gætu orðið „alvöru hernaðarleg skotmörk“ ef þeir myndu berjast gegn Úkraínu.

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Mark Rutte, sagði norðurkóresku hermennina vera til marks um vaxandi örvæntingu Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert