Sjötíu látnir í Valencia

Vegfarendur standa við bílahrúgu sem hefur myndast á götum Sedavi, …
Vegfarendur standa við bílahrúgu sem hefur myndast á götum Sedavi, suður af Valenciu, í kjölfar mannskæðra flóða sem hafa skekið samfélagið á Suður-Spáni síðasta sólarhring. AFP

Tvær konur á níræðisaldri eru meðal þeirra minnst 70 sem hafa látið lífið eftir að úrhellisrigning olli skyndiflóðum í suðaust­ur­hluta Spán­ar. 

Spænska blaðið El País hefur eftir yfirvöldum á svæðinu að í það minnsta 70 séu látnir í Valencia-héraði auk þess sem að tuga er enn saknað. 

Spænska ríkisstjórnin hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg en þetta eru mann­skæðustu flóð á Spáni síðan í ág­úst 1996 þegar 86 lét­ust í norðaust­ur­hluta Aragon ná­lægt Pýrenea­fjöll­um sem liggja að Frakklandi.

88 ára kona fannst látin í bænum Mira í sveitarfélaginu Cuenca og önnur fannst látin í Letur, þar sem fimm manns er saknað. Rigningarveðrið hefur valdið rafmagnsleysi á svæðinu sem hefur áhrif á um 140 þúsund manns og hefur vegum víða verið lokað.

„Hún er bara lítil stelpa“

Maribel, íbúi í Valencia, hefur leitað litlu systur sinnar Evu frá því í gærkvöldi. Hún hefur hringt í nær öll neyðarnúmer, alla spítala á svæðinu, og farið á lögreglustöðina. En enginn veit hvað á að segja við hana og hvert á að vísa henni.

Hún heyrði síðast af litlu systur sinni í gær, þar sem hún hafði verið í bíl með samstarfsmanni sínum þegar rigningin skall á. 

„Þeim tókst að komast út og hún sendi eiginmanni sínum skilaboð um að hún væri í lagi. En samkvæmt því sem við fréttum seinna meir virðist eins og hún hafi verið hrifsuð í burtu af öldu. Og við höfum ekki náð í hana eða fundið hana. Hún er bara lítil stelpa,“ segir hún og brestur í grát.

„Las „fake news““ trufla björgunarstörf

Yfirvöld þurfa nú á sama tíma að bregðast við miklu streymi falsfrétta á netinu – eða „las „fake news““ eins og  José Miguel Basset slökkviliðsstjóri orðaði það á blaðamannafundi í dag. 

Á samfélagsmiðlum hafa ýmsar sögusagnir farið á flakk um að vatn á svæðinu sé ódrykkjarvænt, að stíflur hefðu brostið. Falsfréttirnar hafa villt fyrir fólki og skapað „ringulreið“ sem fylgdi flóðunum, að sögn Basset. 

„Þessar falsfréttir sem hafa dreifst hafa valdið okkur vandræðum, þar á meðal vandamálum er varða almannareglu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka