Vísindamaður grunaður um að aðstoða Rússa

Frá Karkív. Mynd úr safni.
Frá Karkív. Mynd úr safni. AFP

Yfirvöld í Úkraínu hafa handtekið vísindamann á áttræðisaldri sem er sakaður um að hafa aðstoðað Rússlandsher við að betrumbæta hönnun á árásardrónum. Hann hefur nú verið ákærður fyrir að aðstoða árásarríkið. Á hann yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsi. 

Úkraínska leyniþjónustan SBU greindi frá handtökunni í yfirlýsingu fyrr í dag. 

Maðurinn, sem var ekki nafngreindur af SBU, var handtekinn í Karkív-héraði í austurhluta landsins. Er hann sakaður um að hafa unnið að því að uppfæra vélar og kerfi til að koma tækjunum á loft, sem eru svokallaðir Shahed-drónar.

Sprengjudrónarnir eru hannaðir í Íran og hafa mikið verið notaðir af rússneskum hersveitum í innrásarstríðinu í Úkraínu.

Sendi uppfærslurnar sem „vísindagögn“

Vísindamaðurinn er grunaður um að hafa sent uppfærslur sínar til forstjóra rússnesku verksmiðjunnar sem framleiðir íhluti í drónana. Er hann sagður hafa sent upplýsingarnar undir því yfirskini að þetta væru „vísindagögn“ til að forðast að það kæmist upp um hann.

Fyrrverandi nemandi vísindamannsins sem flúði til Rússlands á einnig yfir höfði sé ákæru fyrir að aðstoða hann.

Úkraínsk yfirvöld hafa handtekið þúsundir sem eru grunaðir um að aðstoða rússneskar hersveitir frá því að innrásarstríðið hófst í febrúar árið 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka