„Hvernig finnst ykkur ruslabíllinn minn?“

Trump í appelsínugula vestinu á kosningafundinum.
Trump í appelsínugula vestinu á kosningafundinum. AFP/Chip Somodevilla

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, klifraði upp í ruslabíl á flugvelli í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum og svaraði þar spurningum blaðamanna.

Þetta gerði hann eftir að Joe Biden Bandaríkjaforseti kallaði stuðningsmenn Trumps rusl. Þar var forsetinn að svara fyrir ummæli grínistans Tonys Hinchcliffe, stuðningsmanns Trumps, um að Púertó Ríki væri fljótandi ruslaeyja á hafi úti.

„Hvernig finnst ykkur ruslabíllinn minn? Þessi bíll er til heiðurs Kamölu [Harris forsetaframbjóðanda demókrata] og Joe Biden,“ sagði Trump.

„Þú getur ekki verið forseti ef þú hatar Bandaríkjamenn, sem ég held að þau geri,“ bætti Trump síðar á kosningafundi í Green Bay, þar sem hann var klæddur sama appelsínugula vesti og hann klæddist í ruslabílnum.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP/Chip Somodevilla CHIP SOMODEVILLA

Á sama tíma og repúblikanar fordæmdu ummæli Bidens birtu samtökin The Lincoln Project, sem eru andsnúin Trump, myndskeið frá kosningafundi Trumps í Mosinee í Wisconsin 7. september, sem AFP-fréttastofan hefur sannreynt, þar sem hann kallaði „fólkið sem umkringir“ varaforsetann Kamölu Harris rusl.

Trump hafði gagnrýnt tölfræði Harris vegna atvinnuleysis og sagði: „Og þetta snýst ekki um hana, það er fólkið í kringum hana. Þau eru úrþvætti. Þau eru úrþvætti, og þau vilja rústa landinu okkar. Þau eru algjört rusl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka