Tvöfalt meiri tími með þriggja lyfja meðferð

325 sjúklingar frá 28 löndum tóku þátt í rannsókninni.
325 sjúklingar frá 28 löndum tóku þátt í rannsókninni. Ljósmynd/Krabbameinsfélagið

Þriggja lyfja meðferð gegn brjóstakrabbameini gæti tvöfaldað tímann sem sjúklingar fá þangað til sjúkdómurinn fer versnandi.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar. 

Rannsakendur segja þetta „mikil tímamót“ sem hugsanlega geti haft afar jákvæðar breytingar í för með sér fyrir þá sem eru með algenga tegund brjóstakrabbameins, að því er The Telegraph greindi frá.

Þriggja lyfja meðferðin náði að tefja framgang sjúkdómsins um að meðaltali 15 mánuði, að því er segir í niðurstöðum rannsóknarinnar, sem birtist í tímaritinu The New England Journal of Medicine.

325 sjúklingar tóku þátt

Rannsóknin nefndist INAVO120 og í henni tóku þátt 325 sjúklingar frá 28 löndum. Meira en helmingur þeirra var með krabbamein sem hafði dreift sér til þriggja eða fleiri líffæra. 80% sjúklinganna höfðu þegar gengist undir geislameðferð.

161 sjúklingur fékk þriggja lyfja meðferð sem samanstóð af lyfjunum Palbociclib, Inavolisib, sem er nýtt lyf, og hormónunum Fulvestrant. Hinir 164 sjúklingarnir fengu aðeins lyfin Palbociclib og Fulvestrant. Hjá síðarnefnda hópnum tafðist framgangur sjúkdómsins um 7,3 mánuði miðað við 15 mánuði hjá fyrrnefnda hópnum sem fékk lyfin þrjú.

Meira en 46% sjúklinganna í þriggja lyfja meðferðinni sýndu engin merki um framgang sjúkdómsins, á móti 21% í hinum hópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka